Óstuð og Snjókalla Round Robin

laugardagur, júlí 30, 2005
Þegar ég var búin með litla krílið, hann Tatty Teddy, datt ég í smá saumaóstuð. Mig hreinlega langaði ekkert til að sauma neitt sem er í gangi hjá mér sem er ekki gott mál. Mér nefnilega finnst ég þurfa að fara að klára eitthvað af því sem ég er með í gangi til að geta réttlætt að byrja á nýju. Sérstaklega þar sem ég ætla að fara að gera Vetrardrottninguna þegar nær dregur haustinu.. Hún á nú eftir að taka tímann sinn :-) Þá væri nú gott að vera búin að friða samviskuna og klára t.d. Mill Hill kittið...

En þar sem ég var frekar domm og döpur og ekkert höfðaði til mín ákvað ég þá að leyfa mér að byrja á nýju verkefni. Aðeins til að gleðja mig og reyna að draga hugann frá ýmsu sem var að þjaka mig. Það var samt ekki harðangurskittið (sorrí, Sonja) sem ég byrjaði á heldur annar Round Robin sem ég hef skráð mig í. Þema þess RR er vetur og ég ákvað að þrengja aðeins mitt þema og hafa það snjókalla.

Það var sem sagt snjókall, eða eiginlega snjókelling, sem ég byrjaði á á fimmtu-dagskvöld. Þá fór ég í að undirbúa verkefnið, gera ferningana klára, miðja þá og sauma meðfram jaðrinum þannig að efnið flosni ekki upp þegar verið er að sauma í það.

Þetta er frekar litrík mynd, eins og sést, en ekkert voða stór (67x67 krossar) af snjókellingu sem heldur á sóp, fuglahúsi og fuglamatsdós og það eru nokkrir smáfuglar að narta í matinn sem hún var að dreifa handa þeim. Og það var eins og einhver hefði sagt kraftmikil töfraorð því saumastuðið kom eins og skot aftur og ég held, svei mér þá, að ég sé bara nokkuð langt komin með myndina. Hvað finnst ykkur? Þetta er ágætis árangur á einum degi.. Í næstu ferð í höfuðborgina þarf ég þó að koma við í handavinnubúð til að kaupa nokkra liti sem ég á ekki í snjókallinn (eins og það gleymist!).

Talandi um bæjarferð, þá þarf ég að fara að byrja á kortinu sem ég ætla að gera fyrir brúðkaupið sem ég fer í á næsta laugardag. En þar sem það er frekar lítil mynd þá er ég ekkert voðalega stressuð yfir því, er mest fegin að saumastuðið er ekki að fjara út eins og ég var hrædd um.

Svo sé ég að Linda hefur klárað The Quiltmaker. Mikið rosalega er þetta flott hjá henni! Og þvílíkur dugnaður, ég vildi að ég væri svona dugleg.

Efnisorð: ,

 
posted by Rósa at 11:35, |

1 Comments:

Don't worry about me! Þetta mjakast áfram hjá mér, þú verður enga stund að ná mér.