Bee Square í öllu sínu veldi!

miðvikudagur, ágúst 31, 2005
Það tókst! Meira að segja með keramik tölunum og allt :-D

Ég kláraði blessað Mill Hill kittið núna og er ekkert smá ánægð að hafa náð því í ágúst :-)

Ég er ótrúlega hamingjusöm með þessa mynd og nú vantar mig bara ramma í réttri stærð. Ef ég man rétt þá sagðist Sonja hafa fengið rammann fyrir engilinn sinn í IKEA og ég ætla að kíkja á það hvort þeir eigi ekki eitt stykki handa mér ;-)

Efnisorð:

 
posted by Rósa at 18:17, | 5 comments

UFO þriðjudagur í dag

þriðjudagur, ágúst 30, 2005
Ég var ekki með kittið þegar ég var í bænum seinasta þriðjudag þannig að þetta er þriðja vikan mínog mér finnst mér hafa gengið bara ágætlega. Ég settist niður með myndina eftir kvöldmat og á þessum ca. 3 tímum náði ég að fylla soldið upp í kaktusinn niðri vinstra megin. Hérna er mynd frá því seinast þegar ég saumaði í hana. Ég gleymdi að taka hann með þegar ég var í bænum í seinustu viku þannig að það var ekkert gert í henni þá.

Mikið rosalega er þetta sniðug hugmynd :-) Ég er ofsalega ánægð að Drífa stakk upp á þessu, ég er ekkert viss um að ég væri að sauma í þessari mynd ef ekki fyrir þessa UFO daga. Reyndar veit ég að ég væri ekki að sauma í henni því ég var alveg búin að pakka henni saman og setja ofan í skúffu..

Rosalega flottur að mínu matiTalandi um skúffur.. Ég fann soldið ofan í skúffu sem ég var búin að gleyma að ég ætti til. Svo er mál með vexti að ég var Au-pair í Ammríku í denn og fjölskyldan sem ég var hjá gaf mér rosalega flottan klukkustreng til að sauma í jólagjöf. Með þráðunum og öllu sem til þarf til að klára stykkið! Meira að segja járnhengidótinu til að hengja klukkustrenginn í..

Ég var í Colorado og þetta var svona sampler með blómi fylkisins, fugli þess og ýmsu svona sem telst minna á þetta fylki. Ég lagði samt aldrei í að gera þennan sampler því ég kunni ekki neitt af þessum blessuðu sporum sem notuð voru, t.d. satínspor, Rhodes-spor og fleiri sem ég reyndar kann ekki enn þá en ég er tilbúin að læra ;-) Svo var líka annað, efnið sem fylgdi er ekki Aida, en ég var hrein mey á allt annað en það þegar ég fékk þessa dýrindis gjöf. Einnig voru nokkrir handlitaðir þræðir sem mér leist ekkert á :-D Skrýtið hvernig hlutirnir breytast...

Spurning hvort maður fari ekki að sauma í þetta stykki.. Það er nú búið að bíða nógu lengi eftir athygli, ég fékk þetta í jólagjöf 1996!
 
posted by Rósa at 23:40, | 2 comments

Gleðidans!

Ég er búin!!!

Ég straujaði aðeins yfir stykkið til að það nyti sín betur. Þrátt fyrir nokkrar kiprur þá finnst mér þetta æðislegt. Ég ákvað að nota ekki bláa litinn sem ég var að spá í að nota, en notaði brúna og dökkgráa litinn eins og ég hafði planað.

Nú er bara að ákveða hvað á að gera við meistarastykkið ;-)

Efnisorð:

 
posted by Rósa at 12:30, | 3 comments

Pósturinn hringir alltaf tvisvar...

mánudagur, ágúst 29, 2005
Eða ekki :-) Hann setur bara póstinn í póstkassann...

Pósturinn (sem er reyndar kona) kom með smá glaðning handa mér í dag, nefnilega júnípakkann frá Silkweaver (loksins) og í honum voru Mill Hill perlur í þúsundatali! Jæja, kannski ekki alveg þúsunda en það voru fimm litir, rosalega flottir. Ég ætla sko að nýta þær í eitthvað fallegt, kannski jólaskraut? Það var líka ósýnilegur þráður sem á víst að vera góður til að festa perlur á.. Við sjáum til með það ;-) Einnig voru voðalega þunnir Aidaborðar, annar blár með gylltum brúnum og hinn hvítur með grænum brúnum.. Svo var voðalega fallegt handlitað 28ct Lugana og liturinn heitir Poltergeist, svakalega flott. Stútfullur pakki bara :-) Ég var samt hrifnust af perlunum. Nenni ekki að taka mynd þannig að þið verðið bara að ímynda ykkur þetta :-)

Ég er ekki búin með Wildflower Hearts frá Indigo Rose, en ég á bara eftir ysta ferninginn (satínspor) og nokkur Rhodes spor. Set inn mynd þegar þetta er búið. Ég er að reyna að vanda mig svo þetta verði fallegt á að líta. Ekki fleiri kiprur ;-) Mikið rosalega eru þetta samt falleg spor, ég er t.d. ástfangin af hjörtunum og hvernig þau koma út með þessu spori. Hef séð hjörtu gerð með satínspori (í annarri mynd) og það var flott, en þetta er bara svo spes eitthvað og ekki skemmir þessi fallegi rauði litur fyrir. Ég sé sko fram á að nota svona handlitaða þræði meira í framtíðinni. Ég hefði bara viljað sjá meiri litabrigði í sumum þeirra...
 
posted by Rósa at 23:28, | 0 comments

Wildflower Hearts frh.

sunnudagur, ágúst 28, 2005
Mér finnst ekki gaman hvað efnið kiprast til þarna en burtséð frá því finnst mér þetta æði!

Ekki náði ég nú að klára stykkið í dag eins og ég ætlaði mér, en það er nú ekkert voðalega mikið eftir. Ég datt bara úr stuði eftir matinn og sat bara eins og steinrunnin fyrir framan sjónvarpið (eins og dagskráin er nú léleg á sunnudagskvöldum). Ástæðan fyrir framtaksleysinu er að fyrsti vinnudagur eftir sumarfrí er á morgun... Ég verð vonandi búin að losa mig við þetta slen annað kvöld og get þá einbeitt mér að því að klára þessa mynd.
 
posted by Rósa at 23:04, | 5 comments

Indigo Rose

laugardagur, ágúst 27, 2005
Í fyrsta skipti sem ég sá mynd frá Indigo Rose féll ég alveg fyrir því sem ég sá. Sú mynd heitir Four little hearts og ég sá hana á bloggi sem ég er farin að heimsækja ansi oft.

Alla vegana, þá fór ég að leita að þessu munstri t.d. með hjálp google, en allt kom fyrir ekki, það eina sem ég fann var þessi freebie hérna. Sem er kannski ekki svo slæmt, þetta er fallegt munstur :-) Og í kvöld byrjaði ég á því. Ég ákvað að ég ætti það skilið, enda er ég búin að vera svo dugleg að uppfylla markmiðin sem ég setti mér í upphafi mánaðarins ;-) A.m.k. er það réttlætingin mín, hehe :-D

Ég átti samt ekkert af því garni sem er gefið upp í uppskriftinni, né heldur efnið, en ég átti Platinum Cashel Linen sem ég fékk frá Silkweaver og fullt af garni frá The Gentle Art sem ég fékk frá þeim líka og ég ákvað að nota það bara. Nú hef ég ekki hugmynd um hvað litirnir heita þar sem þetta var svona bland í poka. Rosalega sniðugt líka, t.d. fyrir fólk eins og mig, sem hefur ekki mikið gert af því að nota svona handlitaða þræði og vill prófa en ekki eyða miklum pening ef maður kemst svo að því að manni líkar ekkert við svona dót.

Indigo Rose, Wildflower HeartsÁ myndinni sést það sem búið er og líka litirnir sem ég ætla að nota :-) Frá hægri talið er sá rauði auðvitað í hjörtun (eins og sést), fjólubláa nota ég í fíneríið sem ég er að sauma núna og er hálfnuð með, hinn fjólubláa notaði ég í tígulinn í kringum hjörtun og sennilega eitthvað meira, en hinir þrír eru bara til að grípa í ef ég skyldi vilja auka litaflóruna :-) Enn sem komið er er ég ánægð með hvernig þetta er að koma út. Þetta er líka eiginlega í fyrsta skipti sem ég breyti litum í mynd sem ég geri, ég hef oft notað liti sem ég á ef ég á ekki akkúrat númerið fyrir myndina sem ég er að sauma í það og það skiptið en ég hef aldrei ákveðið í byrjun að ég skyldi nú hafa þetta svona og hitt hinsegin.. Fattiði? Þetta er bara soldið gaman, að sjá hvernig litirnir sem maður er búinn að velja vinna saman og svona.

Efnisorð: , ,

 
posted by Rósa at 23:00, | 6 comments

Pappír og perlur

föstudagur, ágúst 26, 2005
Ég hef verið að sauma aðeins í Bee Square frá Mill Hill í dag og er rosalega ánægð með hvað það gengur vel :-) Kannski ég nái bara að klára áður en langt um líður ;-)

Allar grænu perlurnar í vínviðinum eru búnar og svo er ég búin með helminginn af blómunum sem eru líka perlur. Ég er svo að vinna í seinasta býflugnabúinu og þegar það er búið er voðalega lítið eftir. Efsta borðann geri ég síðast, það stendur í uppskriftinni og þó ég hafi ekki gert allt eftir henni þá ætla ég a.m.k. að hlýða því :-)

Þá verður bara eina vandamálið að finna flottan ramma fyrir myndina og geyma hana á góðum stað fram á vor. Sumarið er nefnilega búið (a.m.k. hérna, rok og hundleiðinlegt veður) og þessi mynd á betur við á vorin og sumrin en haustin.. Svo fer ég að byrja á hinum Mill Hill kittunum sem ég keypti í Völusteini um leið og Bee Square. Þau eiga betur við enda úr Holiday Garden Gate, Frosty og Holiday Wreath. Ég ætla að byrja á snjókallinum, hann er svo sætur eitthvað :-)

Efnisorð:

 
posted by Rósa at 22:10, | 3 comments

Það sem ég keypti í Rvk og bókamerki

Harðangursbókin, perlugarn, bókamerkið, efnin úr Völusteini og tölurnar frá Guðbjörgu.Ég hlakka geðveikt til að gera púðann með jólakettinum. Mér finnst efnið í hann (þetta rauða með gulu hjörtunum) svo sætt en samt ekkert ofur-jólalegt. Sama má segja um efnið í veggteppið, það er geðveikt flott :-) Snjókallarnir eru svo sætir. Ég setti með á myndina tölurnar sem Guðbjörg gaf mér og bókamerkið sem kom í vikunni alla leiðina frá Singapore. Þann 9. ágúst var þjóðhátíðardagurinn þeirra (sami dagur og hún sendi það) og konan sem saumaði það handa mér ákvað að hafa bókamerkið soldið gleðilegt :-) Mér finnst það ótrúlega flott. Svo er bókamerkið sem ég saumaði komið á áfangastað, það fór alla leið til Króatíu, og viðtakandinn sagðist vera voða ánægð með það og fannst litirnir flottir :-) Það er gaman að heyra það.
 
posted by Rósa at 11:24, | 2 comments

Komin heim, veik?

fimmtudagur, ágúst 25, 2005
Æji, ég held ég sé að verða veik, alla vegana er ég voðalega léleg eitthvað. Auðvitað er ég þreytt eftir keyrsluna og allt en ég er bara voðalega lin líka. Svona eins og maður verður áður en maður fær hita... Ekki góðs vísir a.m.k.

En Reykjavíkurferðin var virkilega fín :-) Náði að sauma miklu meira en ég hafði látið mig dreyma um, fór í hitting hjá Sonju og hitti fullt af frábærum saumakonum. Maður var nú ekkert að hafa sig mikið í frammi enda margt sem hægt er að læra af þessum konum sem voru þarna samankomnar. En alla vegana þá þótti mér voðalega gaman að koma þarna og sjá andlitin bakvið tölvupóstana :-)

Á meðan ég var í höfuðborginni fjárfesti ég líka soldið. Keypti harðangursbók fyrir byrjendur þar sem sýnd eru ýmis spor og þar eru jafnvel nokkrar uppskriftir fyrir ýmislegt, t.d. litlar töskur og púða. Svo keypti ég snjókallaefni fyrir Vetrar RR-inn minn sem er með snjókallaþema :-) Og ég keypti líka smá efni til að gera púða en ég ætla að setja jólakisann minn framan á þann púða ásamt nokkrum sætum tölum sem hún Guðbjörg gaf mér. Guðbjörg er í þessum fræga saumaklúbb og ég hitti á hana í búðinni sem hún vinnur í (þar sem ég keypti efnin mín fínu). Ég var ekkert smá hissa og ánægð þegar hún dró fram tölukrúsina sína og gaf mér tölur í púðann minn og líka í veggteppið :-) Algjör dúlla sko! Svo keypti ég mér skæri sem eru beittari en skærin mín til að nota í harðangur. Ég hef ákveðið að gera fleira á því sviðinu þannig að það er ágætt að eiga almennileg skæri. Man ekki hvað ég keypti fleira, saumatengt, þannig að upptalningunni er lokið.

Ég gleymdi að taka með mér UFO-verkefnið mitt, en það er allt í lagi því ég var upptekin að sauma RR-inn hennar Erlu. Er næstum búin með krossana og svo er bara afturstingurinn eftir :-) Það versta er að ég fann tvær villur í Leyni-SALinu og sé fram á leiðindatíma við að laga þær villur. Sem betur fer var það bara einn kross í hvoru tilviki fyrir sig en það er samt soldið mál að laga þetta. Er ekki alveg í skapi til þess í augnablikinu..

Efnisorð:

 
posted by Rósa at 22:27, | 0 comments

Býflugur

sunnudagur, ágúst 21, 2005
Auðvitað gat ég ekki staðist að sauma smá áður en ferðalagið hefst á morgun :-) Ég ákvað að sauma aðeins í Bee Square frá Mill Hill enda langt síðan ég saumaði í þeirri mynd. Ég hef reyndar eitthvað gert síðan ég setti inn mynd seinast en í dag var ég aðallega að sauma býflugurnar til vinstri á myndinni. Það var kannski eitthvað meira en það en samt ekki eins mikið og seinasta færsla með mynd af árangrinum gefur til kynna.

Bee Square frá Mill HillÞetta er svo staðan núna. Bara ágætt að mínu mati, það ætti ekki að taka langan tíma það sem eftir er.
 
posted by Rósa at 00:41, | 1 comments

Þetta er allt að koma

föstudagur, ágúst 19, 2005
Síðastliðna daga hef ég verið ofsalega dugleg að sauma í Leyni-SAL 3 og er núna rétt rúmlega 10 vikum á eftir hinum :-) Ég ætla að vera dugleg áfram og reyna að ná þeim alveg, a.m.k. að minnka bilið aðeins meira.

Ég veit samt ekki hvernig það mun ganga þar sem ég er að fara í bæinn á sunnudag og verð þar þangað til á fimmtudaginn næsta. Þetta er nú ekki bara skemmtiferð, heldur er móðir mín að fara til læknis. Það er nú samt hægt að leyfa sér eitthvað á meðan maður er í höfuðborginni ;-) Það verður pottþétt litið í saumabúðir og á sunnudagskvöld er planið að fara í bíó. Svo verður eflaust eitthvað kíkt í heimsóknir, það er nú algjört möst þegar maður bregður sér í bæjarferð :-)
 
posted by Rósa at 16:10, | 3 comments

UFO þriðjudagur 2

miðvikudagur, ágúst 17, 2005
NærmyndMér gekk mun betur í gær með UFO verkefnið en þriðjudaginn þar á undan. Ég var aðallega í grænu litunum og gerði runnann sem er á milli kaktusanna tveggja. Ég fattaði ekki að taka mynd áður en ég byrjaði, en í Yahoo albúminu mínu er mappa sem heitir UFO og í henni eru myndir sem ég tók fyrr í sumar. Ég hafði ekkert saumað í þessari mynd síðan þá nema þennan eina þráð á seinasta þriðjudag.

Þið sjáið vonandi smá mun :-)
 
posted by Rósa at 12:02, | 3 comments

Rigning..

þriðjudagur, ágúst 16, 2005
Ömurlegt haustveður úti núna! Allir kettirnir mínir eru inni, hver í sínu horninu steinsofandi.

Ég hef enga mynd til að sýna ykkur núna, enda hef ég dembdi ég inn þvílíku magni af myndum af blessuðu harðangursverkefninu :-) Ég var svo spennt! :-D Sérstaklega þarna undir lokin.

Talandi um það, ég hef verið að velta fyrir mér frágangi á verkefnunum mínum sem liggja ofan í skúffu eða ofan á kommóðunni (fyrsti stoppistaður áður en þau lenda í skúffunni sem ætti að vera merkt "Verður aldrei klárað"). Ég er sem sagt voðalega léleg við að klára. Ég klára nú oftast krosssauminn sjálfan, en þegar það er búið er spenningurinn fyrir að byrja á nýju verkefni alltaf svo mikill að frágangurinn sjálfur gleymist, nú eða ég fer auðveldu leiðina og kaupi ódýran ramma til að setja myndirnar í. Mig er farið að langa að tileinka mér einhverjar aðrar leiðir til að klára verkefni, t.d. að búa til púða, en ég er harðákveðin að ByrjandaRRinn minn (sem er með garðþema) verður að slíkum. Svo verður VetrarRR með snjóköllunum að veggteppi. Það er meira að segja komið niður á blað ca. stærð á því þannig að það er smá pæling í þessu :-) Svo væri ég til í að prufa að gera svona smápúða. Þetta virðist svo auðvelt. Svo fann ég leiðbeiningar til að gera fob fyrir skæri. Það er kannski aðeins meira mál ;-) Svo hefur mig langað í nokkurn tíma að gera svona. Og hérna eru leiðbeiningar við frágang á slíku :-) Nú er bara að prenta þetta allt út! Eða setja linkana í favorites.

Ég saumaði aðeins í ByrjandaRR í gær, þessi sem ég er með í höndunum núna tilheyrir Eddu og er með Kaffi/te þema. Myndin sem ég er að sauma er voðalega sæt og dúlluleg, en litirnir sem ég er búin að sauma eru í pasteltónum og það er ekki alveg í takt við þær myndir sem búið er að gera.. En það á eftir að bætast við aðeins dekkri litir og myndin er algjört æði! Ég vona bara að Eddu eigi eftir að líka þetta.

Ég hef ekkert saumað í dag, en er með UFO verkefnið tilbúið til að byrja, en það er Window to the West eins og hefur komið fram áður. Ég lofaði víst að vera dugleg að sauma í hana í dag og ég ætla að standa við það. Kannski það komi jafnvel mynd af árangrinum ;-) Ég er myndasjúk!

Í dag er dánardægur Elvis Presley. TCM hefur verið að sýna fullt af Elvis myndum í dag og mamma er búin að horfa á þær allar :-D Hún elskar Elvis! Svo er afmælisdagur Madonnu. Hún hefur það örugglega fínt :-)
 
posted by Rósa at 17:01, | 2 comments

Fyrsta harðangursverkefnið mitt tilbúið!

mánudagur, ágúst 15, 2005

Nú er bara eftir að ákveða hvað á að gera við gersemina ;-) Það voru nokkrar tillögur í leiðbeiningunum um hvað hægt sé að gera og ég ætla aðeins að melta þær. Svo eru fleiri tillögur um frágang á heimasíðu The Victoria Sampler.

Efnisorð:

 
posted by Rósa at 01:54, | 4 comments

Búin að klippa!!

sunnudagur, ágúst 14, 2005
Ég var ekkert smá stressuð þegar ég byrjaði að klippa en þetta kom voðalega fljótt. Nema í eitt skiptið þegar ég hélt að ég hefði klippt í satínsporin.. úff, það var ekki skemmtilegt móment! En sem betur fer hafði ég ekki klippt neitt vitlaust, það var bara ímyndun í mér.



Nú er bara að vefja þræðina og gera perlurnar. Þá er þetta búið :-)
 
posted by Rósa at 16:00, | 3 comments

Enn af harðangri..

laugardagur, ágúst 13, 2005
Þetta er ótrúlega skemmtilegt verkefni. Bæði fallegt og auðvelt að sauma. Þegar ég segi auðvelt að sauma þá meina ég að efnið sem er notað (25ct hvítt Lugana) er algjör draumur! Ég tek líka heilshugar undir með Sonju að þetta eru góðar leiðbeiningar og auðvelt að fara eftir þeim. Spurning hvort ég væri eins dugleg við þetta verkefni ef leiðbeiningarnar væru ekki svona góðar...

En já, ég er búin með stjörnuna í miðjunni, sem er víst blackwork. Var ekki búin að átta mig á því en ég hélt að þetta væri bara venjulegur afturstingur. En ég var búin að sjá hvernig þetta Holbein spor sem er notað í blackwork væri og mundi nokkurn veginn hvernig maður gerir það. Svo er sýnt á teikningunni í leiðbeiningunum hvernig maður byrjar og það er auðvelt að halda áfram út frá því. Ég er voðalega stolt af því hvað mér gengur vel með þessa mynd :-) Er að fara að byrja á four-sided stitch sem ég hef aldrei heyrt um áður en það lítur ekki út fyrir að vera neitt erfitt. Þetta er ein gerðin af aftursting, maður verður bara að gera hlutina í réttri röð ;-)

Næsta skref á eftir því er að klippa. Það er nú aðalmálið og það sem þetta snýst allt um. Ég bæði hlakka til og kvíði fyrir.

Svona er staðan alla vegana núna:

Þetta gengur allt vonum framar

Ég sé mig alveg gera fleiri verkefni úr þessum lærdómskittum í framtíðinni. Það er þvílíkt magn af sporum sem eru kennd svona og fyrst að leiðbeiningarnar eru svona frábærar og auðveldar í eftirfylgni þá er ekki spurning að nota þetta ef maður vill læra fleiri spor.

 
posted by Rósa at 23:34, | 2 comments

Harðangur og Cross Stitcher

föstudagur, ágúst 12, 2005
árangur gærkvöldsinsÉg byrjaði í gær eins og ég sagðist ætla að gera (loksins stóð ég við eitthvað sem ég segi :-D ) og mikið rosalega er þetta gaman. Það er náttúrulega nýjabrumið sem gerir þetta spennandi og svona en það er líka gaman að læra eitthvað nýtt.

Ég ákvað að fara alveg í einu og öllu eftir leiðbeiningunum og byrjaði á því að gera gyllta utan með og þegar það var búið byrjaði ég á innri hringum í klaustrunum (closter). Svo tók ég mynd í dagsbirtunni núna til að monta mig ;-)

Svo sá ég að Sonja er búin með sína. Rosalega kom hún vel út hjá henni :-) Ég vona að mín heppnist jafn vel.

Í öðrum fréttum þá fékk ég fyrsta eintakið mitt af Cross stitcher í hendurnar. Það var auðvitað ekki fyrsta blaðið (það var eftir öllu í mínum blaðamálum) heldur var það septemberblaðið sem kom. Ég var samt búin að senda þeim póst og þeir sögðu að það tæki smá tíma að koma ágústblaðinu til mín af því ég gerðist áskrifandi eftir að það var sent út til áskrifenda en það ætti að vera á leiðinni. Ég bíð bara og vona. En það sést hvorki tangur né tetur af Júlíblaði World of Cross stitching :-(

blaðið í allri sinni dýrðJæja, nú er nóg komið af væli! Það var svo sem ekkert merkilegt í þessu blaði nema ein kisumynd sem mig myndi langa að sauma við tækifæri. Kannski ef ég tæki þátt í kattaRR... Það er mynd úr bæklingi frá Zweigart þar sem eru 12 kattamyndir og þeir eru allir með blóm. Þessi er með svona poppy sem ég veit ekki hvað heitir á íslensku og kisinn heitir auðvitað Poppy :-) Hann er voðalega sætur og ég væri alveg til í að eiga þennan bækling með öllum kisunum. En, já, með blaðinu fylgdi smá All Our Yesterdays kit af lítilli stelpu í bleikum kjól. Svaka sætt og aldrei að vita nema maður saumi þetta við tækifæri :-)
 
posted by Rósa at 13:54, | 2 comments

Bókamerkið tilbúið!

fimmtudagur, ágúst 11, 2005
Haustlitirnir :-)Ég er bara að tæta listann minn niður :-)

Af því sem var á listanum er kortið búið og komið til skila, Vetrar RR er búinn og tilbúinn til sendingar og bókamerkið fyrir skiptin er búið og mynd hér til sönnunar ;-) Svo er ég búin að velja mynd fyrir ByrjandaRR hennar Eddu. Er meira að segja aðeins byrjuð. Ég hlakka til að sjá hana koma til lífsins :-)

Núna þegar ég er búin með bókamerkið ætla ég að byrja á Harðangursverkefninu :-) Loksins!

Efnisorð:

 
posted by Rósa at 16:09, | 5 comments

UFO þriðjudagur

þriðjudagur, ágúst 09, 2005
Í dag og alla þriðjudaga héðan í frá mun vera UFO dagur hjá okkur í Allt í Kross grúppunni. Hugmyndin er að reyna að klára upp þau verkefni sem maður hefur látið sitja á hakanum of lengi. Mér finnst þessi hugmynd algjör snilld!

Mitt fyrsta verkefni á þessum dögum verður Window to the West. Ég kolféll fyrir þessari mynd fyrst þegar ég sá hana og ég pantaði hana í þvílíkri ástarvímu og byrjaði á henni næstum um leið og ég var búin að opna pakkann :-) En einhvern veginn hefur hún staðið í mér og ég hef ekkert saumað í henni í alltof langan tíma. Held það hafi verið í maí einhvern tímann, um svipað leyti og Leyni-SAL 3 byrjaði. Síðan þá hefur þessi mynd hrapað niður listann yfir hluti sem mig langar að sauma og yfir því hef ég haft þvílíkt samviskubit... Held að ástæðan fyrir framtaksleysinu geti verið javinn sem hún er saumuð í. Javinn sem fylgdi er áprentaður í kringum svæðið sem er saumað í og það gerir javann mun harðari en venjulega. Aida er nú oftar en ekki harðara undir hönd en t.d. hör eða evenweave en þetta slær öll met! Mér finnst bara leiðinlegt að sauma í þennan java og ég meira að segja skammast mín fyrir að segja þetta. En svona er þetta bara.

En nú snýr allt til betri vegar því ég hef tekið myndina fram úr skugganum inn í birtuna og ylinn af athygli minni og atorkusemi þar sem dugnaður minn mun að lokum yfirstíga hvern þann erfiðleika sem þessi mynd færir mér í fang! Ég sem sagt tók hana fram og byrjaði að sauma aðeins í hana í dag. Og hætti eftir einn þráð!

Já, svona var nú dugnaðurinn mikill! En jæja, ég gerði þó eitthvað og næsta þriðjudag verð ég enn duglegri! Ég bara meika ekki þennan java akkúrat núna!
 
posted by Rósa at 21:36, | 3 comments

Komin heim :-)

mánudagur, ágúst 08, 2005
Svona var myndin þegar ég var búin að sauma hanaÍ heiðardalinn...

Brúðkaupið tókst með eindæmum vel, brúðhjónin voru bæði rosalega myndarleg og stúlkurnar þeirra stóðu sig alveg frábærlega. Þau eiga sem sagt tvær dætur sem voru í sætustu bleiku kjólum sem ég hef séð! Og þær voru hringaberar og tóku hlutverkið sitt augljóslega rosalega alvarlega því þær voru rosalega duglegar allan tímann í kirkjunni. Miðað við aldur (3ja og 5 ára) finnst mér það mjög gott. Æji, þetta var bara svo yndislegt og sætt allt saman :-)

Handavinnan sat alveg á hakanum um helgina, eina sem ég gerði var að föndra eitt stykki kort, fékk það sem mig vantaði til þess í Völusteini. Komst að því að hann var búinn að færa sig um set :-) En ég gleymdi að taka mynd af kortinu sem ég og önnur vinkona mín lögðum mikinn tíma í að föndra þannig að þið verðið bara að trúa mér þegar ég segi að það hafi verið svaka sætt ;-)

Það var samt ekki vegna þess að ég væri ekki með neina handavinnu meðferðis að ekkert var aðhafst í þeim málum. Nei, nei! Ég held ég hafi verið með bara allt sem ég hef einsett mér að gera í ágúst meðferðis.. en það gafst enginn tími til neins. Svona er þetta bara, föstudagurinn fór í sendiferðir fyrir sjálfa mig og afgangstíminn fór í að vera með brúðinni og aðeins að hjálpa við skreytingar. Laugardagurinn fór í verslunarferð því mig vantaði fatnað til að vera í, og svo auðvitað í að gera sig sæta og svona ;-) Svo fór sunnudagurinn í veikindi hjá mér :-( Ekki vegna ofdrykkju, enda drakk ég bara smá freyðivín og pínu hvítvín, heldur vegna höfuðverkja.. og í dag fór ég heim!

Alltaf er nú gaman að vera komin heim! :-D
 
posted by Rósa at 22:56, | 0 comments

Fullt að gerast

fimmtudagur, ágúst 04, 2005
Svona er myndin sem ég sauma á kortiðÍ fyrramálið legg ég af stað til höfuðborgarinnar þar sem ég mun vera viðstödd brúðkaup á laugardag. Það er ákveðið, ja, kannski legg ég af stað um hádegi :-) Þarf nefnilega að klára blessað kortið en það er voða lítið eftir af því, nokkrir krossar og svo afturstingurinn auðvitað. Ég stal þessari mynd af EMS síðunni en ekki segja frá :-/ Alla vegana hotlinkaði ég ekki :-) Góð stelpa... En já, ég kem heim aftur á sunnudag kannski með einhverjar sögur handa ykkur!?! Hver veit!

Í öðrum fréttum þá fékk ég svaka flott blað frá The World of Cross Stitching í póstinum í gær. Þar er Tatty teddy í allri sinni dýrð (og með allan sinn aftursting) að baka köku. Rosalega langar mig að sauma hann en það verður ekki alveg í bráðina samt! Fékk nóg um daginn :-) Í þessu blaði er líka rosalega falleg mynd af poppy field (ekki hugmynd hvað blómið heitir á íslensku en það er örugglega holtasóley eða eitthvað auðvelt :-D ). Ég væri til í að sauma hana einhvern tímann líka, en sennilega gerist það aldrei... Það var svo sem ekkert annað sem heillaði mig í því blaði.

Talandi um The World of Cross Stitching (svaka langt að vélrita þetta) þá er ég ekki enn búin að fá Júlíblaðið... Þetta var September blaðið sem ég fékk núna (hjá mér er samt ágúst nýbyrjaður, skil ekki dagatalið hjá þessum blöðum). Ætli ég þurfi að hringja aftur? Svo er ég ekki búin að fá fyrsta eintakið mitt af Cross Stitcher.. Ætli það fari sömu leið og Júlíblað WCS? Þarf kannski að hringja þangað líka?

Ég fékk meiri glaðning í póstinum í dag. Ég er meðlimur í Stash of the month klúbbnum hjá Silkweaver og fékk júlí-pakkann í dag. Þar var smekkur til að sauma í, Zweigart 32ct Belfast linen, ólífugrænt að lit, Lizzie Kate Flip it block fyrir Október og svo poki með alls kyns lituðum þráðum frá The Gentle Art. Það verður gaman að prufa þetta, t.d. til að sauma Flip it eða eitthvað :-) Maður er að verða búinn að safna ágætum haug af saumadóti eftir að vera í þessum klúbbi, en ég byrjaði í honum í mars. Á samt eftir að fá Júní-pakkann.. Það er að myndast þema í þessu hjá mér, er það ekki? Ég ætla samt ekki að senda Silkweaver e-mail strax, Apríl-pakkinn kom ekki til mín fyrr en eftir rétt rúmlega 2 mánuði!

Jæja, ég ætla að fara að horfa á The O.C. á meðan ég klára þessa seinustu krossa í kortamyndina.
 
posted by Rósa at 00:56, | 4 comments

Snjókellingin tilbúin

þriðjudagur, ágúst 02, 2005
Ég er ekkert smá ánægð með hana líka :-) Það eru þónokkrir franskir hnútar í henni og ég hef nú aldrei verið neitt voðalega klár að gera þá, en ég held að þeir hafi bara tekist sæmilega. Annars á ég eftir að strauja hana og gera hana fína, en kannski ég sleppi því þangað til ég fæ hana aftur. Þá verður hún ásamt hinum snjóköllunum sem verða saumaðir handa mér sett í veggteppi sem mun prýða heimili mitt á veturna. Ég fæ þennan RR nú ekki aftur fyrr en á næsta ári, en það er allt í fína, ég hef þá allt næsta ár til að sauma veggteppið ;-)


Það átti að hanga stjarna neðan úr g-inu í Giving en ég ákvað að sleppa henni. Ég var alltaf að spá af hverju það var sett stjarna þarna þegar ég skoðaði munstrið. Svo finnst mér þetta bara fínt eins og þetta er. Nógu mikið er nú í gangi á þessari mynd :-)

Ég er aðeins byrjuð á kortinu og það tekur eflaust ekki langan tíma að klára það og þá byrja ég á harðangurskittinu sem Sonja er að verða búin með :-D Hún getur þá hjálpað mér með þetta, nú þegar hún hefur reynsluna ;-)

Efnisorð:

 
posted by Rósa at 21:14, | 1 comments