Markmið

laugardagur, júlí 30, 2005
Ég ætla í framtíðinni að skrifa hér inn hvað það er sem ég þarf að gera í hverjum mánuði. Þá get ég séð svart á hvítu hvað ég á eftir að gera og hvað er búið af því sem:
  • a) ég hef tekið að mér að sauma og
  • b) ég hef ánægju af því að sauma.

Ok, best að byrja á því að segja að það hefur gengið vel að ná 60 mínútum á dag markmiðinu. Það hafa verið ca. 3-4 dagar þar sem ég náði því ekki, en hina dagana hef ég svo sannarlega bætt upp fyrir það. Þannig að ég ætla að halda þessu markmiði áfram.

Á listanum fyrir ágúst eru þessi verkefni:

  • ByrjandaRR með sendingardag 15. sept.
  • Vetrar RR með sendingardag 1. sept.
  • Bókamerki með sendingardag 10. sept.
  • Kort fyrir giftinguna 6. ágúst.
  • Harðangurs-SAL með Sonju.
  • Leyni-SAL 3.

Ég er enn langt á eftir í Leyni-SAL 3 en á meðan mér finnst svona margt hvíla á mér þá læt ég það vera, nema ég finni mikla löngun í það :-) Reynslan segir mér að ég get lítið sem ekkert tjónkað við mig ef mig langar að sauma eitthvað!

Það sést á þessum litla lista að það sem er mest áríðandi er kortið fyrir 6. ágúst. Ég býst við að byrja á því í dag, en þar sem ég er að vinna í kvöld í aukavinnunni minni býst ég ekki við miklum árangri.

Svo ætla ég líka að reyna að klára Mill Hill kittið en ég er ekkert voðalega bjartsýn með það. Ég sé til hvernig allt hitt gengur áður en ég set mér markmið varðandi það.

Úff! Ég veit ekki hvernig þessi tilraun til að skipuleggja mig mun ganga, en ég er vongóð um að þessi yfirsýn muni hjálpa mér aðeins að ná utan um allt og vonandi halda mér í góðu saumastuði út mánuðinn.

 
posted by Rósa at 12:12, | 1 comments

Óstuð og Snjókalla Round Robin

Þegar ég var búin með litla krílið, hann Tatty Teddy, datt ég í smá saumaóstuð. Mig hreinlega langaði ekkert til að sauma neitt sem er í gangi hjá mér sem er ekki gott mál. Mér nefnilega finnst ég þurfa að fara að klára eitthvað af því sem ég er með í gangi til að geta réttlætt að byrja á nýju. Sérstaklega þar sem ég ætla að fara að gera Vetrardrottninguna þegar nær dregur haustinu.. Hún á nú eftir að taka tímann sinn :-) Þá væri nú gott að vera búin að friða samviskuna og klára t.d. Mill Hill kittið...

En þar sem ég var frekar domm og döpur og ekkert höfðaði til mín ákvað ég þá að leyfa mér að byrja á nýju verkefni. Aðeins til að gleðja mig og reyna að draga hugann frá ýmsu sem var að þjaka mig. Það var samt ekki harðangurskittið (sorrí, Sonja) sem ég byrjaði á heldur annar Round Robin sem ég hef skráð mig í. Þema þess RR er vetur og ég ákvað að þrengja aðeins mitt þema og hafa það snjókalla.

Það var sem sagt snjókall, eða eiginlega snjókelling, sem ég byrjaði á á fimmtu-dagskvöld. Þá fór ég í að undirbúa verkefnið, gera ferningana klára, miðja þá og sauma meðfram jaðrinum þannig að efnið flosni ekki upp þegar verið er að sauma í það.

Þetta er frekar litrík mynd, eins og sést, en ekkert voða stór (67x67 krossar) af snjókellingu sem heldur á sóp, fuglahúsi og fuglamatsdós og það eru nokkrir smáfuglar að narta í matinn sem hún var að dreifa handa þeim. Og það var eins og einhver hefði sagt kraftmikil töfraorð því saumastuðið kom eins og skot aftur og ég held, svei mér þá, að ég sé bara nokkuð langt komin með myndina. Hvað finnst ykkur? Þetta er ágætis árangur á einum degi.. Í næstu ferð í höfuðborgina þarf ég þó að koma við í handavinnubúð til að kaupa nokkra liti sem ég á ekki í snjókallinn (eins og það gleymist!).

Talandi um bæjarferð, þá þarf ég að fara að byrja á kortinu sem ég ætla að gera fyrir brúðkaupið sem ég fer í á næsta laugardag. En þar sem það er frekar lítil mynd þá er ég ekkert voðalega stressuð yfir því, er mest fegin að saumastuðið er ekki að fjara út eins og ég var hrædd um.

Svo sé ég að Linda hefur klárað The Quiltmaker. Mikið rosalega er þetta flott hjá henni! Og þvílíkur dugnaður, ég vildi að ég væri svona dugleg.

Efnisorð: ,

 
posted by Rósa at 11:35, | 1 comments

Mikið var!

miðvikudagur, júlí 27, 2005
Ég er svo fegin að ég er loksins búin með þennan blessaða snjáða bangsa! Það var kominn tími á það líka. Ég tók næstum 2 daga í að gera eitthvað sem tók í reynd ca. 3 klukkutíma! Svona gekk þessi blessaði afturstingur illa í mig. En hann er loksins búinn og ég er þvílíkt stollt af bangsanum :-)

Myndin er aðeins úr fókus, ég náði bara ekki betri mynd. Loftur, annar kötturinn minn, hélt að ég væri að leika við hann og var alltaf að reyna að ná myndavélinni af mér... vitlausi kisi! Nú liggur hann steinsofandi í rúminu mínu, voðalega feginn að vera kominn heim. Hann hefur nefnilega verið undanfarna 3 mánuði í fóstri hjá bróður mínum á meðan ég passaði læðuna hins bróður míns og kettlingana hennar. Loftur greyið var ekkert alveg sáttur við alla kettlingana og vesenið sem fylgdi þeim. Þannig að hann fékk inni hjá bróður mínum þar til kettlingarnir færu. Og þeir fóru í dag. Til dýralæknisins. Ég grét. Og græt enn við tilhugsunina.

Efnisorð: ,

 
posted by Rósa at 19:01, | 5 comments

Afmæli og brúðkaup

mánudagur, júlí 25, 2005
Í dag var afmælisdagurinn minn. Ég er víst orðin of stór fyrir pakka, en ég fékk þó blómvönd og fullt af hringingum :-) Gaman að vita að fólk man eftir manni. En alla vegana var þessi afmælisdagur alveg ágætur. Ég náði að sauma dáldið, fékk blóm og þurfti ekkert að elda neitt :-)

Svo hringdi vinkona mín til að vita hvort ég kæmi ekki alveg örugglega í brúðkaupið hennar. Ég mun sem sagt fara í bæinn til að samgleðjast henni og tilvonandi eiginmanni þarnæstu helgi. Maður getur ekki verið þekktur fyrir annað sko :-) Við erum búnar að vera vinkonur svo lengi. Verst að hafa ekki vitað af þessu fyrr, þá hefði maður kannski saumað eitthvað. Ég ætla alla vegana að sauma kort. Kannski eina af myndunum frá EMS, hún gerir svo sætar kortamyndir og nokkrar eru einmitt fyrir þetta tilefni. Það verður sem sagt næsta verkefni eftir snjáða bangsann. Ætti ekki að taka langan tíma að gera eitt stykki kort :-)

Ég hef ekki náð að klára Tatty teddy en það gengur ágætlega með afturstinginn þó mér fallist hendur annað slagið því þetta er heill hellingur. Sérstaklega það sem er litað með grænu. En þetta smá mjakast áfram. Bangsinn er kominn með andlit :-) Gaman að sjá framan í greyið sem er búinn að ergja mig svona ;-)

Efnisorð:

 
posted by Rósa at 23:46, | 1 comments

Byrjuð á afturstingnum!

Eftir að sauma heilan helling í Leyni-SAL í gær ákvað ég að skipta aðeins um gír og taka upp Tatty teddy aftur. Ég virtist vera sú eina sem átti erfitt með að lesa munstrið þannig að ég ákvað að harka bara af mér og klára krossana. Þeir eru núna búnir og ég er aðeins byrjuð á afturstingnum! Úff!! Ég segi það bara :-) Annars er ég voða fegin að hafa ákveðið að gera hann í Jobelan frekar en Aida. Hef á tilfinningunni að afturstingurinn njóti sín betur í evenweave en Aida.. Þetta er svo mikið!

Kannski næ ég að klára afturstinginn í dag, nema ég skipti aftur um ham og fari í Mill Hill kittið, nú eða aftur í Leyni-SALið... Ég virðist ekki geta haldið mig við neitt í langan tíma. En á meðan afraksturinn af saumaskapnum er sjáanlegur þá er þetta í lagi.

Ef allt gengur vel þá er aldrei að vita nema ég birti mynd með næstu færslu af tilbúnum bangsa :-) Ég er alltaf svo bjartsýn.
 
posted by Rósa at 15:30, | 0 comments

Leyni-SAL 3

sunnudagur, júlí 24, 2005
Undanfarna daga hef ég léttilega náð að uppfylla markmiðið mitt um að sauma í 60 mínútur á dag. Á föstudag var ég að dúlla við Mill Hill kittið (sem verður svakalega flott þegar það er búið) og svo tók Leyni-SAL 3 við í gær.

Skrýtið hvað ég er í miklu saumastuði í sumar. Seinasta sumar gerði ég varla neitt, a.m.k. ekki miðað við núna. Ég gerði reyndar eldhúsmyndina Velkomin í Eldhúsið, en það var í ágúst 2004 sem ég gerði hana. Svo gerði ég 3 All Our Yesterdays myndir en þær voru nú í minna lagi.

Ég var komin soldið aftur úr í Leyni-SALinu, var bara á viku þrjátíu og eitthvað (ég skammast mín þvílíkt) en er nú komin í viku 40 sýnist mér. A.m.k. er ég búin með þvílíkt mikið. Það var þarna einn grænn litur sem fór bara þvílíkt í mínar taugar, það var ekkert hægt að tjónka við hann. Samt er grænn minn uppáhaldslitur... En hann er búinn og næstu 5 eða sex litir eftir það :-)

Það er rosalega gaman þegar gengur svona vel, ég sé fram á að ná stelpunum fyrir næsta skammt, en hann kemur á miðvikudag. Það er náttúrulega því að þakka að ég þarf ekki að mæta í vinnuna á morgun :-) Get bara setið og saumað og notið þess að vera til!
 
posted by Rósa at 13:11, | 1 comments

Sumarfrí!

föstudagur, júlí 22, 2005
Je minn eini, hvað á ég eiginlega að gera næstu 5 vikurnar? Ég veit reyndar hvað ég geri eina vikuna og svo helgina eftir verslunarmannahelgina, en fyrir utan það er dagskráin alveg tóm. Ja fyrir utan krosssauminn auðvitað ;-)
 
posted by Rósa at 16:07, | 4 comments

Bókamerki

fimmtudagur, júlí 21, 2005
Sætt bláklukkubókamerki :-)Ég veit ekki hvað kom yfir mig í gær en ég fór í einu búðina sem selur hannyrðir hérna á Hornafirði (og ekki er nú úrvalið þar neitt til að hrópa húrra fyrir, en allt er hey í harðindum :-) ) og ætlaði að kaupa borða til að búa mér til bókamerki. Jú það var til sem og lítil kit til að gera bókamerki frá Permin, og haldiði að mín hafi ekki bara fjárfest í einu slíku. Já, svei mér þá.. Svo byrjaði ég á herlegheitunum í gærkvöld og kláraði núna áðan.

Ástæðan fyrir þessum skyndilega áhuga á bókamerkjum er að ég hef skráð mig í bókamerkjaskipti og þarf því að sauma eitt slíkt og fæ eitt bókamerki í laun. Ekki slæmt :-) Þetta listaverk sem ég kláraði núna í kvöld verður samt ekki svo frægt að fá að ferðast um heiminn, heldur hef ég gefið móður minni það. Ég hef annað í hyggju fyrir þessi skipti. Það kemur bara í ljós seinna hvað það er.

Ásamt því að sauma aðeins í bókamerkinu í gærkvöldi tók ég nokkur spor í Mill Hill kittinu. Það voru nú engin ósköp þannig að mér fannst ekki taka því að festa það á filmu. En þetta er allt í áttina :-)

Svo fékk ég pakka frá útlöndunum, var nefnilega að panta frá Sew and So. Það var nú ekki stór pöntun, en meðal þess sem kom var harðangurskit. Sonja var búin að kaupa sér svona kit en við vorum að tala um það í Allt í Kross klúbbnum að það væri nú gaman að læra þessa tækni. Nú er ég sem sagt líka komin með svona kit en ég ætla ekki að byrja á því strax. Vantar smá þor til að taka skrefið til fulls :-)
 
posted by Rósa at 23:18, | 2 comments

Góður árangur í dag

þriðjudagur, júlí 19, 2005
Ég er búin að vera rosalega dugleg í dag. Eftir að hafa gert nokkur heimilisverk settist ég niður við Bee Square kittið og hef verið að klára border vinstra megin. Svo er bara eftir að perla eitt býflugnabúið og þá er sá ferningur svo gott sem búinn.. Jamm, ég er bara hörkudugleg í dag :-)

Sko mig :-D
Það vantar tvær svartar perlur neðst þarna en fyrir utan það þá er vinstri borðinn búinn og næsta skref er að klára krossana. Komst að því að það er ekkert sniðugt að perla áður en maður klárar krossana, perlurnar þvælast bara fyrir manni :-( En það má auðvitað perla þar sem allir krossar eru búnir, ekki satt? Það er svo gaman að perlast :-)
 
posted by Rósa at 20:32, | 2 comments

Mígreni er ömurlegt!

mánudagur, júlí 18, 2005
Þessi dagur er búinn að vera hrein hörmung, gat eiginlega ekkert gert af viti í vinnunni af því ég var að drepast í höfðinu og svo get ég auðvitað ekkert saumað þegar ég er svona :-( Mér er nú samt farið að líða aðeins skár þannig að ég gæti saumað en ég vil ekki hætta á það að hausverkurinn byrji aftur. Það er alltaf hætta á því þegar maður er að rýna í munstrin og svo í javann. Ég næ sem sagt ekki klukkutímanum sem ég hef sett mér í saumaskapnum í dag. Jæja, ég reyni þá að sauma bara meira á morgun :-)
 
posted by Rósa at 21:29, | 0 comments

Í lok stuttrar helgar..

sunnudagur, júlí 17, 2005
Þá er þessi helgin að verða búin og ég er sama og ekkert búin að sauma. Jæja, ég lýg því, en ég hefði viljað sauma meira, það er engin lygi :-)

Tatty Teddy er kominn með blöðruna sína og það mótar fyrir fótunum á honum núna. Mikið svakalega er mikill afturstingur á honum, úff bara! En ég held því enn og aftur fram að þetta munstur er ekki gott.. maður þarf að giska og jafnvel skálda bara hvaða litur er undir öllum þessum aftursting. Ekki gott að mínu mati. En hann verður vonandi sætur fyrir því.

Kannski ég nái að sauma eitthvað í kvöld, en það verður sko ekki litli snjáði bangsi, er búin að fá nóg af honum í bili, saumaði aðeins í honum í dag og gafst upp. Ég verð sýnilega að taka hann með svona áhlaupum, en ekki eins og jólabangsann sem ég gat gert bara í einum rykk lá við :-) En fyrst ég ætla ekki að sauma snjáða bangsa þá er ég nú ekki alveg viss hvað skal gera, Mill Hill kittið er ekki að kalla neitt sérstaklega á mig, kannski ég taki upp Window to the West.. Langt síðan ég hef gert eitthvað í því.. Of langt ef þú spyrð mig ;-)
 
posted by Rósa at 19:08, | 0 comments

Alveg forfallin!

föstudagur, júlí 15, 2005
Ég held að maður geti nú varla sokkið lengra en ég í þessari krosssaumsáráttu.. Eða kannski, ég á þá örugglega eftir að upplifa það ;-)

Ástæðan fyrir því að ég staðhæfi þetta er að ég var fyrir örskammri stundu að gerast áskrifandi að öðru blaði. Heimsferðalag Júlíblaðs World of Cross Stitching hefur sem sagt ekki gert mig afhuga áskriftum að krosssaumsblöðum :-D Þetta blað sem heillaði mig núna er Cross Stitcher en það er líka breskt blað. Það er svo mikið af fígúrum í þessum bresku blöðum, sætir bangsar eða jafnvel kisur :-) Það sem einmitt heillaði mig mest við þetta blað (Ágústblað Cross Stitcher) er að þar eru 6 nýjar kisur frá Margaret Sherry. Ég hef gert eina kisu eftir hana (sá hana saumaða í albúminu hennar Lindu litluskvís og kolféll) og ætla að gera fleiri. Þegar ég sá að hún væri búin að gera fleiri þurfti ekki fleiri vitnanna við og ég ákvað að kaupa áskrift. Auðvitað hefði ég getað keypt bara þetta eina blað, en það vita þeir sem þekkja mig að það hefði ekki verið nóg fyrir mig. Vitandi að það kæmi út blað sem hugsanlega gæti haft eitthvað munstur sem mig myndi hugsanlega kannski langa að sauma.. nei það gengur ekki, ég verð að eignast umrætt blað til að geta átt möguleikann á því að sauma kannski umrædda mynd.. eða eitthvað svoleiðis! Það er erfitt að vera forfallinn krosssaumsfíkill!
 
posted by Rósa at 21:40, | 5 comments

Bee Square

Eftir að Teddy Bear Greetings var búinn ætlaði ég víst að klára Tatty Teddy... Jæja, ég er augljóslega ekki manneskja sem stendur við svona yfirlýsingar! Ég sauma líka oftast það sem mig langar, en ekki það sem mér finnst að ég verði að gera... Þá er svo hætt við að mér finnist verkefnið vera kvöð frekar en ánægja og þá held ég mig frá því. Skrýtin skrúfa, það er ég :-)

Gengur bara vel :-)

Ég hélt sem sagt áfram með Mill Hill kittið Bee Square í gærkvöldi og verð að segja að mikill árangur náðist með það! Ég byrjaði aðeins að perlast, og einn ferningurinn er næstum búinn, eins og sést :-) Mikið rosalega hlakkar mig til að sjá þetta þegar þetta verður tilbúið...

Saumastuðið entist til að verða 11 í gærkvöldi, en þá ákvað ég að fara að leggja mig. En neeei, það var nú ekki alveg það sem gerðist... Haldiði að ég hafi ekki gripið aðeins í Tatty Teddy áður en ég sofnaði! Reyndar gerði ég bara einn hvítan þráð en það er þó alltaf eitthvað, ekki satt? ;-) Þetta þýðir að gærdagurinn var mikill og góður saumadagur, þrátt fyrir góða veðrið sem var hérna. En ég er heldur ekki mikill sóldýrkandi.

 
posted by Rósa at 10:44, | 0 comments

Vantar bara límið

miðvikudagur, júlí 13, 2005
Svona verður hann þegar límið er komiðog þá er þetta komið :-)

Mér finnst þetta ekkert smá æðislegur bangsi. Ég á enn eftir að gera afturstinginn í stjörnunni, en ég er að spá í að sleppa því, mér finnst bangsinn sætur eins og hann er. Svo hefði ég helst viljað hafa textann á íslensku, en Gleðileg Jól komast illa fyrir þarna. Vinkona mín lagði til að ég setti bara Jólin 2005 þarna sem mér finnst alls ekki svo slæm hugmynd, nema jólin eru ekki komin.. Finnst hálfkjánalegt að setja það þegar það er enn rúmir 5 mánuðir í jólin :-)

Mér dettur eitthvað í hug. Ef þið sem lesið þetta hafið einhverjar hugmyndir um texta þá eru þær vel þegnar ;-)
 
posted by Rósa at 19:30, | 3 comments

Alveg að verða búin!

Með bangsann :-) Á bara eftir að gera litlu stjörnurnar tvær og svo afturstinginn í stjörnunni sem bangsinn heldur á. Varð samt að klippa hann út til að sjá dýrðina :-D Já, og svo er auðvitað eftir að líma þetta við járndótið sem fylgdi með, þetta sem er beygt og bogið og stendur Greetings. Þetta verður geðveikt flott!


Reykjavíkurferðin gekk rosalega vel, það var farið í búðir og verslað alls konar dót. T.d. keypti ég mér krosssaumsbók, með árstíðabundnum munstrum í. Rosalega sæt bókamerki í henni sem ég á eftir að gera, a.m.k. eitt handa móður minni og jafnvel handa sjálfri mér :-) Svo keypti ég plast til að sauma í, eitt hvítt og eitt glært. Ég hef svona gaman af því að sauma í plastið ;-) Verst hvað langatöngin fer illa á þessu. Það er soldið erfitt að fela endana, nálin stingst alltaf inn í fingurinn og ég bara þoldi ekki við og setti á mig plástur... Bara varð! Annars er ég ekki mikil plástramanneskja, hef aldrei verið mikið fyrir svoleiðis, þetta dettur alltaf af ef maður fer að gera eitthvað!

Það liggur við að maður sé enn þreyttur eftir alla keyrsluna í gær, og ég keyrði nú bara seinasta spölinn úr Öræfunum og hingað heim. Aumingjaskapur í manni!
 
posted by Rósa at 01:20, | 1 comments

Bangsinn

sunnudagur, júlí 10, 2005
Hann verður geggjað sætur :-)Það gengur bara alveg ágætlega með jólabangsann, eins og sést :-) Ég hlakka mikið til að sjá hann tilbúinn. Það er takmarkið núna, að klára hann og svo tekur Tatty Teddy við aftur. Vonandi gengur mér þá betur að lesa munstrið :-) Það er svolítið erfitt eins og ég hef talað um áður.

Í fyrramálið þarf ég að vakna snemma því ég er að fara í bæinn. Það er bara skotferð, verð komin heim aftur um kvöldið, en ég ætla að fara með vinkonu minni sem er að fara til læknis og við ætlum að fara í nokkrar búðir á meðan við erum staddar í höfuðstaðnum. Það verður bara gaman :-)
 
posted by Rósa at 16:58, | 0 comments

Furðulegt!

föstudagur, júlí 08, 2005
Ég skil ekki hvernig sumir hlutir hverfa bara eins og hendi væri veifað.

Ég var nefnilega að sauma smá í gærkvöldi, bara smáverkefni, lítið jólaskraut. Þetta er svona lítið kit sem er saumað í plast og ég keypti hjá Helgu frá Stöðvarfirði á markaðstorginu á Hátíð á Höfn. Mig langaði bara að prufa sko að sauma í plast :-)

Jæja, ég hætti að sauma um miðnætti og gekk frá öllum þráðum og setti í ziplock poka. Svo man ég ekki alveg hvort ég skildi pokann eftir inni í stofu eða hvort ég tók hann með inn í herbergi. Hvort sem var þá er pokinn horfinn! Ég finn hann hvergi... búin að leita alls staðar og hvergi finnst tangur né tetur af vesalings pokanum. Ef kettirnir hafa náð í hann þá ætti innihaldið að vera útum allt gólf og ekki fara framhjá manni... en nei, það er ekki svo gott. Búálfarnir hafa sennilega tekið þetta. Ég vona bara að þeir skili því tilbúnu :-) Svo mikið er ég búin að hafa fyrir því að leita að þessu! Liggur við að ég þurfi að fara að rífa upp gólfin hérna til að finna þetta blessaða saumadót!

Fyrst að þetta fór svona þá byrjaði ég að sauma Wire Welcome í dag, þetta sem ég fékk í jólapakkanum um daginn. Þetta er Dimensions kit saumað í plast og rosalega sætt. Snjáði bangsi (Tatty Teddy) fær að bíða smá á meðan ég svala fýsnum mínum, híhí! Ég er bara eitthvað eirðarlaus í mér og þess vegna er ég með svona mörg járn í eldinum. Hver veit hvað ég geri á morgun?

Enn sem komið er gengur vel að halda 60 mínútur á dag markmiðið. Var búin að vinna um hádegi í dag og hef verið dugleg að sauma og sinna húsverkunum á milli :-)

Þar sem ekki hefur gengið vel að linka á myndirnar mínar í Yahoo! myndaalbúminu mínu hef ég ákveðið að geyma myndir sem ég ætla að linka á annars staðar. Þar helst a.m.k. linkurinn óbreyttur! Þannig að vonandi verður ekkert meira vesen með myndir sem sjást ekki ;-)
 
posted by Rósa at 19:40, | 2 comments

Snjáði bangsi

fimmtudagur, júlí 07, 2005
Ég var voðalega dugleg að sauma í gærkvöldi og nú er bangsinn kominn með hendur líka :-) Það munar nú um það!

Ég verð nú samt að segja eins og er að það er ekki auðvelt að fylgja þessu munstri. Það er svo mikill afturstingur að stundum sér maður ekki nógu vel hvaða tákn er undir afturstingnum og þá þarf maður að fara að giska og mér finnst það ekkert spes. Þá er líka komin hætta á því að maður geri vitleysur og fari að telja vitlaust.

Annars hef ég engar fréttir, fékk enga pakka frá útlöndum í dag :-( Það eru ekki alltaf jólin!
 
posted by Rósa at 15:19, | 0 comments

Jólin í Júlí

miðvikudagur, júlí 06, 2005
Það sem ég fékk úr Christmas in July Exchange.Ég er ekkert smá happí, ég var nefnilega að fá pakkann minn úr þessum skiptum sem ég sagði ykkur frá. Alla vegana, ég tók mynd af herlegheitunum. Það er sem sagt þessi mynd, ég er ekkert smá ánægð með bæklinginn sem ég fékk. Það eru fullt af æðislegum jólasveinamunstrum sem ég á pottþétt eftir að sauma, svo er jólasokkurinn með bangsanum svo sætur. Hann er saumaður í plast, ég hef ekki prufað það enn, en ég hef gert í pappír og það getur nú varla verið mikið öðruvísi? Jæja, ég kemst að því fyrr en varir, eftir að ég klára Tatty Teddy þá byrja ég á þessu kitti.

Svo gleymdi ég að segja frá því að ég fékk fyrsta tölublaðið mitt af The World Of Cross Stitching á mánudag. Það var Ágústheftið sem ég fékk, á eftir að fá Júlíheftið samt. Áskriftin mín átti sko að byrja á Júlí en það blað hefur tekið einhvern útúrdúr á leiðinni til landsins. Það hefur viljað skoða sig aðeins um í heiminum fyrst ;-) En ég hringdi samt í útgefanda blaðsins í seinustu viku og þar var ansi indæl kona sem sagðist ætla að láta senda mér annað eintak. Ég bíð bara þolinmóð eftir því, kannski það vilji líka skoða heiminn?

Ég byrjaði á Tatty Teddy í gærkvöldi. Ég saumaði aðallega höfuðið á honum þannig að það er komin smá mynd á hann. Ég ákvað að sauma hann í handlitað efni frá Silkweaver. Ég nefnilega keypti aðeins hjá þeim fyrir nokkru þegar þeir voru með einhvern afslátt. Linda benti okkur í klúbbnum á það tilboð og ég keypti hjá þeim svona sýnishorn af litunum þeirra, stærðin á efnunum er 9x13 tommur og ég keypti 4 Jobelan Expressions og 4 Silkweaver solo. Vildi ekki kaupa meira þar sem ég hef litla reynslu af svona handlituðu og heldur ekki neitt rosalega mikla reynslu af þessum efnum. Ég hef langmest saumað í Aida um ævina og kann rosalega vel við það. Hef aðeins saumaði í hör og fannst það æðislegt en hef verið soldið rög að taka stærri skref á þeim vettvangi. Tatty Teddy er sem sagt saumaður í 28ct Jobelan Expressions og liturinn heitir Dreamin' og er blár með eins konar skýjum sem eru aðeins ljósari. Þrátt fyrir að bangsinn sé að mestu grár þá kemur þetta ágætlega út. Í stað Anchor lita þá nota ég DMC, ég á eiginlega enga Anchor liti þannig að þetta verður bara að vera svona.

Ég sýni mynd um leið og það er komið eitthvað að viti til að sýna ;-)

Efnisorð: , , ,

 
posted by Rósa at 12:40, | 2 comments

Myndarskapur

þriðjudagur, júlí 05, 2005
Ég hef verið þrábeðin um að setja inn mynd af bútasaumsteppinu og hef nú orðið við því :-)

Jæja þá, það var bara ein sem vildi það en ég vil endilega monta mig ;-)

Svo er komin ákvörðun varðandi Tatty Teddy. Hann skal saumaður, hann á það skilið, litla greyið!
 
posted by Rósa at 17:15, | 8 comments

Round Robin búinn í bili :-)

Ég er ekkert smá ánægð, ég náði að klára RR-inn hennar Erlu núna áðan, það eina sem er eftir er að setja nafnið mitt undir og svo veit ég ekki hvort hún ætlar að setja tölur (charms) á þegar hún fær hann aftur. Ef svo er þá er 2 mínútna afturstingur eftir, ég vildi frekar skilja það eftir en að rekja það upp ef hún vill ekki hafa það.

Mikið rosalega var samt gaman að sauma þessa mynd, mig myndi langa til að sauma svona handa sjálfri mér jafnvel einhvern tímann. Þó ég sé ekkert í bútasaumnum ;-) Hver veit, kannski á ég eftir að falla fyrir honum í framtíðinni...

Nú er aldrei að vita nema maður láti sig hafa það og taki þátt í Júlí SAL í Allt í Kross. Hann er svo sætur Tatty Teddy bangsinn sem er verkefni þessa mánaðar. Ég hef aldrei saumað hann áður en séð nokkur munstur og finnst hann æði. Soldið mikið af afturstingnum, en það er ágætt. Maður verður nú að hafa eitthvað fyrir hlutunum.

Mér hefur gengið mjög vel að halda markmiðið mitt, enda er ég í saumastuði þessa dagana. Reyndar var ég fárveik á laugardag (vín fer ekki vel í mig), en náði að sauma í tæpa 2 tíma um kvöldið. Á sunnudag var ég að vinna til kl. 18 og var soldið þreytt þannig að ég saumaði bara ca. 60 mín það kvöld. Núna í kvöld aftur á móti náði ég að sauma heilan helling, þess vegna er ég búin með Erlu RR :-) Tók bíómynd á leigu og saumaði á meðan ég hlustaði á hana ;-) Góð mynd samt. Ég er sem sagt bara sátt við hvernig þetta gengur allt saman.

Humarhátíðin var fín, það sem ég náði í af henni :-)

Efnisorð:

 
posted by Rósa at 01:18, | 2 comments

60 mín á hverjum degi

föstudagur, júlí 01, 2005
Ég hef ákveðið að setja mér markmið í saumaskapnum. Það er reyndar ekki að setja óloknu verkin mín í rotation, þó að ég sé voða hrifin af þeirri hugmynd, heldur ætla ég héðan í frá að reyna að sauma a.m.k. 60 mínútur á dag. Mér hefur tekist það í dag, er búin að ná að sauma í ca. 90 mín sem er mjög gott :-) sérstaklega ef maður hugsar til þess að það er humarhátíð í bænum og fullt að gerast. Við skulum svo sjá hvort þetta markmið mitt heldur lífi, og þá hversu lengi! :-)

Annars er maður er búinn að snúast svo í kringum sjálfan sig að það hálfa væri nóg :-D Núna er einmitt kominn tími á mann að fara niður á bryggju til að taka þátt í hátíðahöldunum, það er verið að fara að setja hátíðina á formlegan máta.

Gleðilega helgi, allir saman!
 
posted by Rósa at 20:10, | 2 comments